Leiðbeiningar
Í upphafi þarftu bara að vita brúttóstærð hússins og hvenær það var tekið í notkun. Þessar upplýsingar getur þú náð í í fasteignaskrá Þjóðskrár á netinu ef þú ert ekki með þær.
Ef þú velur síðan að gera staðlaða viðhaldsáætlun þá ertu þar með komin/n með viðhaldsáætlun fyrir húsið þitt til næstu 80 áranna, ár fyrir ár.
Þetta er ekki flókið eða hvað ? Hér er komin góð áætlun sem sýnir hvað þarf að gera hvert ár þessa tímabils og hvað það muni kosta. Þessi áætlun gefur góða mynd af því sem þarf að gera (engu gleymt) og hvað það kostar. Áætlunin er sundurliðuð þannig að allir liðir koma fram, öll verð og aðrar forsendur og er bæði langtímaáætlun og ársáætlun hvers árs.
Næst er farið yfir þá liði sem eru í áætluninni og magn þeirra og gengið úr skugga um að það sé í samræmi við húsið þitt, skipt út liðum sem ekki eiga við og leiðrétt magn einstakra liða. Að þessu loknu eru forsendur áætlunarainnar réttar og þarf ekki að breyta þeim næstu 80 árin svo fremi húsinu sé ekki breytt á þeim tíma. Allt sem þarf að gera er að uppfæra kostnaðinn og er það gert með einni skipun.
NOKKUR ORÐ UM HELSTU KAFLA VIÐHALDSKERFISINS
Kafli „4.1 Upplýsingar um húsið“ inniheldur m.a. upplýsingar um húsið sem koma sjálfkrafa fram í öllum öðrum gögnum þess í kerfinu. Einnig eru þar Handbók hússins, rekstrarhandbækur kerfa og dagbók umsjónarmanns.
Kafli „4.2 Stofnun viðhaldsáætlunar“ er einn af aðalköflum viðhaldskerfisins og þar er grunnurinn að viðhaldsáætluninni lagður bæði fyrir langtímaáætlun og ársáætlanir ásamt flokkun viðhaldsþátta og líftíma þeirra.
Kafli „4.3 Skýrsla um ástand hússins“ þar eru vistaðar skýrslur sem gerðar hafa verið um ástand hússins og notaðar eru við ákvarðanir um áframhaldandi viðhald.
Kafli „4.4 Ástandsskoðanir – skráning, myndir og magntaka“ Í þessum kafla er að finna gátlista til nota við ástandsskoðun húsa, bæði utanhúss- og innan. Mikilvægt er t.d. að slík ástandsskoðun fari fram þegar tekið er við húsi, hvort sem um er að ræða nýtt eða gamalt hús, til að fá vitneskju um ástand þess á þeim tímapunkti. Þessir þættir eru unnir og vistaðir með appi eða beint í kerfinu sjálfu.
Kafli „4.5 Langtímaviðhaldsáætlun“ er einn af aðalköflum viðhaldskerfisins, en langtíma-viðhaldsáætlunin verður til um leið og grunnáætlun er stofnuð í kafla 4.2. Þarna birtast ýmsar mikilvægar upplýsingar um viðhald hússins á líftíma þess og þarna er kolefnislosun hússins reiknuð vegna viðhaldsverka á líftíma þess.
Kafli „4.6 Stakar viðhaldsáætlanir, ársáætlanir og verkbeiðnir“ þar eru kallaðar fram og unnar ársáætlanir og stakar áætlanir sem ákveðið er að fram skuli fara. Slíkt viðhald hefur oftast áhrif á hvenær samskonar viðhald fer næst fram.
Kafli „4.7 Fundir um viðhaldsmálefni“. Á þessum stað er form til að halda utan um fundi og fundargerðir sem snerta viðhaldsmál hússins.
Kafli „4.8 Efnisupplýsingar viðhaldsþátta og helsti tæknibúnaður“. Á þessum stað er haldið utan um upplýsingar um efni sem notað er við viðhald hússins, birgja, gerðir, litanúmar o.s.frv. Einnig um tæknibúnað hússins.
Kafli „4.9 Húsbók – Viðhaldssaga hússins“. Hér er haldið utan um viðhaldssögu hússins, þ.e. fyrri viðhaldsverk og er m.a. til að nota við ákvarðanir um viðhaldþörf og áframhaldandi viðhald.
Kafli „4.10 Annað“. Á þessum stað er haldið utan um upplýsingar um annað sem snertir viðhald hússins og ekki er gert ráð fyrir í áður nefndum köflum.